Cookies go nicely with oat drinks. As it happens, the digital kind do too. So is it okay with you if we use cookies on this site? What’s cookies?

Það er ekki auðvelt að breyta til

Oatly var byggt á hugmyndafræði um breytingar. Meginástæða fyrir tilveru okkar hefur verið að koma á breytingum og gagnsæi í núverandi matvælakerfi, sem ber ábyrgð á 25% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu, og helmingur af þessu hlutfalli kemur frá kjöt- og mjólkurvöruiðnaðnum.

Pælingin okkar var, og er enn, að bjóða uppá plöntumiðaðan valkost sem væri það æðislegur, að langflestum myndi ekki finnast það einhver málamiðlun að leggja sér hann til munns. Þannig getum við komið af stað breytingum í átt að sjálfbærari heimi. Hinsvegar hefur þetta ævintýri okkar leitt til margra óhentugra og óþægilegra ákvarðana. Við höfum margoft stigið á tærnar á vinum okkar sem og þeim sem eru ekki sammála um markmiðin okkar, og nú höfum við enn og aftur gert það.

Að þessu sinni snýst málið um þörf okkar fyrir fjármagn, nánar tiltekið 400 milljónir Bandaríkjadala, til að geta haldið áfram að stækka á eins sjálfbæran hátt og mögulegt er. Því málið er að eftirspurn eftir vörunum okkar heldur áfram að vaxa úr öllu veldi, bæði á núverandi mörkuðum sem og nýjum. Þetta fjármagn mun gera okkur kleift að byggja verksmiðjur í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu samkvæmt þeim sömu háu stöðlum og við setjum okkar núverandi framleiðendum annarsstaðar. Við höfum tryggt okkur 200 milljónir með svokölluðu grænu bankaláni þar sem við erum, samkvæmt skilmálum lánsins, skuldbundin til að tryggja að allar okkar fjárfestingar fari í sjálfbær verkefni. Hinar 200 milljónirnar komu með fjárfestingu Blackstone. Sko, þessi fjárfesting býr til fyrirsagnir sem vekja mikla athygli og það í heimi þar sem umræður hafa orðið hættulega svartar og hvítar. En pælingin okkar með að vinna með Blackstone var algjör andstæða þess; þetta var mjög vel úthugsuð ákvörðun sem var margþætt og í samræmi við hvernig við hugsum breytingar.

Fyrir langalöngu, þegar við vorum bara lítið haframjólkurfyrirtæki í einhverri sænskri sveit, þá veltum við þessari spurningu fyrir okkur: Hvað getum við gert til að koma á sem mestri breytingu og mögulegt er til að geta haft jákvæð áhrif á jörðina? Ættum við að halda áfram að selja vörurnar okkar í gegnum sérhæfðar lífrænar, heilsu- og veganbúðir, því það eru þær sem hafa alltaf stutt við bakið á okkur? Eða, ættum við að vera þar sem fólk er, í matvörubúðunum? Eini vandinn við að vera í matvörubúðunum var að töluverður hluti tekna þeirra er aflað með sölu á kjöt- og kúamjólkurvörum. En hvað myndi gerast ef við gætum sýnt matvörubúðunum að með því að vinna saman, gætum við aukið tekjur okkar sem og þeirra og á sama tíma mögulega opnað fyrir nýjan valmöguleika? Við spáðum því að þetta myndi leiða til þess að plöntumiðaðar vörur myndu komast á betri stað í búðarhillunum, sem myndi leiða til þess að fleiri myndu sjá þær og sjá kosti þeirra og þar með endurskoða neysluvenjur sínar. Þar sem við erum sjálfbærnifyrirtæki sem er alltaf að reyna að stuðla að sem mestum breytingum og mögulegt er, þá völdum við matvöruverslanirnar. Eins og staðan er núna, þá virðist þessi spá okkar vera að ganga eftir.

Af þessum sömu ástæðum ákváðum við að snúa okkur að Blackstone til viðræðna um að tryggja sjálfbæra fjármögnun. Blackstone er eins og stærsta matvörubúð í einkafjármagnssjóðageiranum. Við héldum að ef við gætum sannfært þá um að það sé jafn hagkvæmt (og til lengra tíma jafnvel hagkvæmara) að fjárfesta í sjálfbærnifyrirtæki eins og Oatly, þá myndu allir hinir einkafjármagnssjóðir heimsins horfa í átt að, hlusta á og byrja að beina þeirra samtals 4 billjóna Bandaríkjadala virði inn í grænar fjárfestingar. Nú á dögum fer hinsvegar bara lítið brot af þessu áhættufjármagni inn í sjálfbærar fjárfestingar. Ef við hefðum snúið okkur að sérhæfðum grænum fjárfesta fyrir fjármagn, hefðum við bara orðið brotabrot af þessu litla broti og þar að leiðandi ekki komist á ratsjá stórra fjárfestingafyrirtækja. Við myndum þannig ekki geta haft nein áhrif á flutning fjármagns inn í græn fyrirtæki.

Þess í stað er okkar spá sú að þegar fjárfesting Blackstone í haframiðuðu sjálfbærnihreyfingunni okkar muni skila þeim meiri hagnaði en þeir fengju annars staðar frá (t.d. frá kjöt- og kúamjólkurvöruiðnaðnum, sem eru ein af ástæðum skógareyðinga í Amazon), þá munu einkafjármagnssjóðir í heiminum heyra áhrifamikil skilaboð sem verða skrifuð á einmitt því máli sem gagnrýnendur okkar halda fram að þeir muni hlusta á: hagnaði.

Ef við viljum einhvern tíma eiga séns á að ná fram loftslagsmarkmiðum heimsins um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% fyrir 2030 og engri mengun fyrir 2050, þá þurfum við að tala á því tungumáli sem fjármagnsmarkaðir skilja. Með því að gera það, getum við mögulega náð gríðarlegu fjármagnsstreymi í burt frá gasi, olíu og sojabaunaframleiðslu í Amazon, og beint því inn í græn verkefni og fyrirtæki. Ef einkafjármagn heimsins vinnur að grænni framtíð, munum við í raun fá tækifæri til þess að bjarga jörðinni fyrir framtíðarkynslóðir. En klukkan tifar og við þurfum að gera eitthvað núna, ekki á morgun.

Að fá fyrirtæki eins og Blackstone til að fjárfesta í okkur er eitthvað sem við höfum verið að vinna að til að koma á hámarksbreytingum jörðinni til góða. Frá sjálfbærnissjónarmiði erum við sannfærð um að ef fókus þessa gífurlegs fjármagns væri færður í átt að sjálfbærni, væri það mögulega til lengri tíma það mikilvægasta sem við getum gert fyrir jörðina okkar. Við áttum okkur á því að allir hafi kannski ekki sömu afstöðu og við og séu kannski ósammála um hver rétti vegurinn fram á við í átt að sjálfbærari heimi sé. En það er allt í lagi. Vonandi munum við ennþá hafa sama endamarkmið um betri og sjálfbærari heim og geta unnið að þessu markmiði saman, á hvaða hátt sem er.

/Oatly